Ný tækifæri í Hítará eftir skriðufall

Eins og flestum er kunnugt um varð Hítará fyrir skyndilegum breytingum í gær þegar berghlaup rann úr Fagraskógarfjalli yfir ána og stöðvaði rennsli hennar fram að ármótum Hítarár og Tálma. Góðu fréttirnar eru þær að nýtt og spennandi svæði hefur opnast þar sem Hítará rennur nú út í Tálma talsvert ofar og verður vatnsmeiri mun fyrr á leið sinni til sjávar og því meira spennandi fyrir okkur veiðimenn.

Grettistak hefur ákveðið í ljósi breytinga á rennsli árinnar að lengja veiðisvæði Hítarár I upp að Úrhyl þar sem Grjótá og Tálmi mætast og munu það verða ný veiðimörk Hítarár. Grjótá og Hítará ofan Úrhyls munu seljast saman frá og með 2019..

Þó eftirsjá sé af mörgum fallegum veiðistöðum opnast nú nýr og spennandi möguleiki þar sem Kattafoss er ekki lengur farartálmi og því auðveldast leiðin fyrir laxinn í efri hrygningarsvæði Hítarár. Við lítum því komandi ár björtum augum þó eflaust verði sumarið 2018 mörgum erfitt.